Gleðifréttir fyrir leigjendur hjá Brynju-hússjóði

2018-05-07T11:51:51+00:00 7. maí, 2018|Reykjavík|

Öryrkjabandalag Íslands hefur haldið ákveðinni kröfu á lofti gagnvart Reykjavíkurborg vegna dóms Hæstaréttar frá árinu 2015, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að leigjendur hjá Brynju, hússjóði Örykjabandalagsins, hafi átt rétt á að sækja um sérstakar húsaleigubætur þó að þeim hafi verið meinað um það samkvæmt reglum borgarinnar. Krafan hefur verið sú að allir fái þennan rétt, óháð því hvort þeir sóttu um á sínum tíma eða ekki.

Píratar í Reykjavík tóku skýra afstöðu með ÖBÍ og ályktuðu svona á félagsfundi þann 23. mars:

„Dómur Hæstaréttar í máli 728/2015 snýst um að leigjendur hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, áttu í raun rétt á því að sækja um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg en var samkvæmt reglum borgarinnar neitað um að sækja um þær. Sumir reyndu ekki einu sinni að sækja um, af því þeir vissu að það hefði ekkert upp á sig. Reglurnar reyndust samkvæmt dómnum ekki vera í samræmi við lög. Píratar í Reykjavík telja að dómurinn þýði að allir eigi rétt á að sækja um afturvirkt, óháð því hvort þeir sóttu um á sínum tíma. Borgin þarf að axla ábyrgðina á því að framkvæmdin var ekki í samræmi við lög og leita leiða til að koma til móts við alla sem voru hlunnfarnir. Ef einhverjar lagalegar eða stjórnsýslulegar flækjur eru í málinu þarf einfaldlega að finna út úr þeim sem allra fyrst. Réttlætið gengur fyrir.“

Á fundi í borgarráðs síðastliðinn fimmtudag allir borgarráðsfulltrúar á að gera þetta með einmitt þessum hætti. Svo skemmtilega vildi til að Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, stjórnaði þessum fundi. Sama dag var Öryrkjabandalagið að halda fund um réttindi fatlaðs fólks með frambjóðendum til borgarstjórnarkosninga í Ráðhúsinu. Þangað bárust fregnir af afgreiðslu borgarráðs um leið og fundurinn kláraðist og var þeim fregnum vel tekið.