Grein um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

2018-05-12T10:34:29+00:00 10. maí, 2018|Reykjanesbær|

HEIL­BRIGÐIS­STOFNUN SUÐUR­NESJA Á BATA­VEGI?

Píratar vilja láta skoða hvort rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) sé betur komið í

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Grein úr Fréttablaðinu 10.5.2018

höndum Sveitarfélaga á Suðurnesjum, þar sem með fram margra ára niðurskurði ríkisins og flutning grunnþjónustu frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins hefur fjármagn verið skorið við nögl og þjónusta þar skert, þrátt fyrir að sjúkrahúsið sé vel búið til að takast á við mun viðameiri verkefni en nú er og veita heimafólki betri þjónustu.

Píratar á Suðurnesjum bjóða fram góðann lista til sveitarstjórnarkosninga síðar í maí. Stefnumálin eru margvísleg og öll þörf og þó fátt sé nýtt undir sólinni koma Píratar með nokkur málefni sem geta talist óumrædd hér í Reykjanesbæ. Þar má nefna fjölskyldustefnu, hugmyndir um aukið íbúalýðræði, kosningar bæjarstjóra í íbúakosningu, eflingu skapandi greina, umhverfisstefnu fyrir bæjarfélagið, andstöðu við mengandi iðjuver nálægt íbúabyggð og mögulega yfirtöku sveitarfélaga á HSS.

Hugmynd Pírata um yfirtöku HSS má rekja til þingmanns okkar í Suðurkjördæmi, Smára McCarthy, sem nefndi þetta eftir að hafa heyrt um hvernig sveitarfélagið í Höfn yfirtók rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands fyrir skemmstu sem er hluti af tilraun til að færa ábyrgð og rekstur heilbrigðisþjónustu nær notendum. Stefnumótun þeirra á Hornafirði var birt í apríl 2018 og þar er að finna gott fordæmi og sem við í Reykjanesbæ getum unnið eftir og framtíðarsýn sem við getum tekið í okkar eigin hendur.

Í Reykjanesbæ stendur vel búið sjúkrahús með færu starfsfólki en það er ekki fullnýtt og fær lægri fjárframlög frá ríkinu en aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu. Af hverju er þetta? Er þarna verið að skerða sjálfsákvörðunarrétt suðurnesjabúa af því höfuðborgin er í klukkutíma fjarlægð? Tengt því hefur maður oft spurt sig, af hverju var fullbúnu sjúkrahúsi sem bandaríkjaher skildi eftir á Ásbrú lokað án almennrar umræðu?

Án þess að undirritaður telji sig vera sérfræðing í rekstri sjúkrastofnana þá má vel sjá fyrir sér tækifæri tengd sívaxandi ferðamannastraum um Keflavíkurflugvöll og viðbúnað vegna flugumferðar, sem leiðir til að efla grunn-heilbrigðisþjónustu og umönnun heimafólks. Með öflugt sjúkrahús undir stjórn heimamanna getum við sótt um styrki sem í boði eru til fjárfestinga í aðstöðu og kaupa á búnaði sem þjóna rannsóknum í þágu heilsu íbúa.

Píratar vita að hugmyndin um yfirtöku sveitarfélaganna á Suðurnesjum á rekstri HSS fái góðar viðtökur enda hafa aðrir flokkar í bænum tekið hana upp líka og áður var málið skoðað árið 2009, sem sýnir að fleiri sjá hag okkar heimamanna betur borgið með því að reka sjúkrahúsið á eigin forsendum. Í leiðinni getum við bætt gagnsæi í rekstrinum og fylgst með tölfræði um heilbrigði íbúa á Suðurnesjum. Auk þess er brýnt að gera sjúkrahúsið að traustum vinnustað þar sem gott fagfólk og læknar sjá framtíð fyrir sér.

Til langs tíma er besta hagræðingin í heilbrigðismálum til lengri tíma sú sem felst í fyrirbyggjandi aðgerðum, heilsugæslu og lýðheilsu, meðal annars með ókeypis félags- og sálfræðiþjónustu, sem munu skila sér í bættri heilsu íbúa á öllum aldri um öll Suðurnesin. En óheft aðgengi að sjúkrahúsi með sérhæfðum læknum er nauðsynleg þegar heilsan brestur eða slys ber að höndum. Slíkt er líklega best tryggt með því að sveitarfélög á svæðinu sjái um að rekstur heilbrigðisþjónustunnar sé sem næst notendum.

Albert Svan Sigurðsson, ritari Pírata á Suðurnesjum

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. maí 2018
https://www.frettabladid.is/skodun/heilbrigisstofnun-suurnesja-a-batavegi