Elín Karlsdóttir skrifar um yngstu íbúa landsins

2018-05-24T16:43:14+00:00 23. maí, 2018|Akureyri|

Á fyrstu tveimur árum barnsins myndast fleiri tengingar á milli taugafruma í heilanum en á nokkru öðru aldursskeiði og þarna spila geðtengsl barnanna við umönnunaraðila sinn stærsta hlutverkið. Geðtengsl myndast í gegnum jákvæð samskipti þar sem barnið er miðpunkturinn, hugað sé að þörfum þess og brugðist við tilfinningum þess. Þessi geðtengsl þurfa að vera stöðug og áreiðanleg og út frá þeim lærir barnið fyrst og fremst sjálfsstjórn, að þekkja tilfinningar sínar og eiga félagsleg samskipti við aðra. Allt þetta eru mjög mikilvægir þættir þegar kemur að því að takast á við streitu og erfiðleika á lífsleiðinni. Í gegnum góð geðtengsl þróa börn með sér meiri seiglu sem meðal annars minnkar líkurnar á því að þau þrói með sér geðraskanir seinna á lífsleiðinni. Það eru einnig meiri líkur á því að barninu gangi vel í skóla seinna meir og eigi alla jafna farsæl samskipti við aðra.

Í stuttu máli eru þessi kríli okkar að læra að takast á við lífið með hjálp stöðugra og öruggra tengsla við fullorðinn einstakling. Þetta er nám og þroski sem erfitt er, ef ekki ómögulegt, að taka út seinna á lífsleiðinni.

Foreldrar barnsins eru bestu einstaklingarnir til þess að sinna þessum þroska barns síns. Það eru þeir sem þekkja þarfir og persónuleika barns síns best. Hins vegar, eins og kerfið er á Akureyri í dag, þá er ætlast til þess að dagforeldri sinni þessu námi og þroska barnanna meirihluta dagsins þegar börnin eru orðin 9 mánaða.

Menntun er framtíð

Umræðan þegar kemur að þessum málaflokki í stjórnmálum snýst að miklu leyti fyrst og fremst um þarfir foreldra og vinnumarkaðarins. Sárasjaldan er talað um þarfir barnanna. Lausnirnar snúa að því að finna fyrst og fremst pláss til þess að setja börnin í og einstaklinga sem eru til í að sinna þeim. Að passað sé upp á að foreldrar geti sinnt vinnu sinni sem mest og lengst. Hvað getum við gert eins og staðan er í dag til þess að hlúa sem allra best að þessum allra yngstu borgurum okkar? Erfitt er að fá pláss hjá dagforeldrum á Akureyri í dag og hafa margir nefnt þá lausn að finna börnunum pláss í leikskólunum með því að útbúa þar sérstakar ungbarnadeildir. Þannig sé hægt að nýta betur starfsfólkið, meðal annars með því að sameina barnahópa, þannig að fleiri en einn starfsmaður sé að vinna saman. Það er hinsvegar einfaldlega þannig að þegar mörg ung börn um eins árs aldur eru komin saman, þá aukast líkurnar á hávaða og árekstrum. Börn á þessum aldri þurfa meira rými heldur en þau sem eldri eru. Huga þarf sérstaklega að hljóðvist þegar kemur að þessum aldursflokki meðal annars vegna þess að heyrn barna er viðkvæmari en hjá fullorðnum. Þau þurfa, eins og áður segir, einnig nauðsynlega á góðum tengslum við umönnunaraðila sinn að halda þar sem maður á mann samskipti þurfa að vera í fyrirrúmi.

Ef við færum okkur aðeins ofar í aldri og víkjum umræðunni að stöðu leikskólabarna almennt á Akureyri þá er margt jákvætt hægt að nefna, þó fyrst og fremst hversu margt fagfólk starfar við leikskólana. Hvað þetta varðar stendur Akureyri meira að segja einstaklega vel þar sem hlutfall fagmenntaðra er hærra en gengur og gerist í öðrum sveitarfélögum.  Viðhorfið til leikskóla af hálfu stjórnmálafólks virðist hins vegar því miður einkennast af skammsýni og í raun hreinni vanvirðingu. Markmiðið virðist alltaf vera það að koma eins mörgum börnum fyrir í hvert rými og á hvern kennara og mögulegt er, helst að sjálfsögðu fyrir sem minnstan pening. Til þess að spara pening í leikskólamálum á undanförnum árum og áratugum á Akureyri hefur verið gert ýmislegt. Leikskólum hefur verið lokað, settar hafa verið skorður á ráðningu fagmenntaðs starfsfólks. Bráðabirgðahúsnæði hefur verið notað sem leikskóli og það jafnvel svo lélegt að fáir myndu kjósa að vinna eða læra í því. Síðan eru sumir leikskólar einfaldlega löngu sprungnir vegna fjölda nemenda. Leikskólabörn og starfsfólk leikskóla eiga nánast bara að vera þakklátt fyrir að hafa þak yfir höfuðið. Við þurfum að passa upp á fagfólkið okkar og aðra reynslubolta í leikskólunum og það þarf að hleypa þeim að ákvörðunarborðinu.

Þá hentar ekki hvaða húsnæði sem er sem leikskóli og kominn tími til að það sé virt.

Við gerum okkur grein fyrir því að það skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið og foreldra að vel sé staðið að daggæslu- og leikskólamálum. Við gerum okkur líka grein fyrir því að menntun og daggæsla barna er dýr málaflokkur og að miklir fjármunir fari í hann á hverju ári. En sannarlega er verið kasta krónunni fyrir aurinn. Með raunverulegri framtíðarsýn í ummönnun ungra barna, byggða á þeirri staðreynd sem vísað er í byrjun greinar, er ljóst að samfélagið gæti sparað háar fjárhæðir sem annars færu í að reyna að laga það sem laskað var. Fyrir utan að ala hér upp heilbrigðari einstaklinga inn í samfélagið sem síðar nýtur góðs af þeim. Þetta er hluti af þeim lífsgæðum sem Akureyringar eiga skilið. Það er allt of mikið litið á börnin okkar, aðstæður þeirra, nám og þroska sem tölur á blaði, þar sem sífellt er verið finna leiðir til þess að komast sem ódýrast frá þessu án þess að fá of mikið samviskubit. Við eigum alltaf að setja börnin okkar í fyrsta sæti og gera okkar allra besta þegar kemur að þeim, annað bara kemur ekki til greina.

Elín Karlsdóttir skipar 12. sæti á lista Pírata og er leikskólakennari.
Greinin birtist fyrst í Vikudegi