Sigurbjörg Erla Egilsdóttir 2018-05-21T10:22:09+00:00

„Það er þessi áhersla á gagnrýna hugsun og taka vel upplýstar ákvarðanir, hvernig fyrri ákvarðanir geta alltaf sætt endurskoðun og afstaða til hugmynda er óháð því hver kemur fram með hugmyndina.“

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

1. sæti í Kópavogi

Aldur

Ég er 31 árs

Maki/börn

Maðurinn minn heitir Óttar Helgi Einarsson tölvunarfræðingur og við eigum þrjú börn, Egil Þór sem er fimm ára, Freystein Pál sem er tveggja ára og Margréti Lilju sem er sjö mánaða.

Hvar ólstu upp

Ég er fædd og uppalin í Neskaupstað en hef búið í Kópavogi að mestu leyti frá 15 ára aldri. Foreldrar mínir ákváðu að flytja suður, þau eru bæði úr Reykjavík en fluttu upphaflega austur til að vinna, svo árið 2000 var því tímabili lokið og ég var nú ekki par sátt við það, 13 ára og ekki alveg til í að skipta um umhverfi og skipta út vinahópnum mínum. Til að byrja með taldi ég nánast niður í að verða nógu gömul til að geta flutt að heiman og aftur í bæinn minn. Ég tók ár í að taka nýja umhverfið í sátt og ég er allavega ekki ennþá flutt austur – þó Neskaupstaður togi alltaf svolítið í mig, sérstaklega þegar ég fer í heimsókn þangað.

Menntun

Ég fór í MH og kláraði þar bæði félagsfræði-og náttúrufræðibraut. Eftir það tók ég smá tíma í að ferðast um heiminn, flakkaði um Suður-Ameríku í hálft ár og annað eins um Kína og Suðaustur-Asíu. Svo fór ég í sálfræði í Háskóla Íslands, í beinu framhaldi af því þá fór ég í cand. psych. framhaldsnámið og þaðan í doktorsnám í stjórnmálasálfræði. Ég lauk einu ári þar en svo breyttust aðeins aðstæður hjá mér, ég fór í fæðingarorlof, svo eiginlega beint aftur í fæðingarorlof þannig að ég hef ekki farið aftur í skólann og óljóst hvenær ég klára gráðuna.

Starfsreynsla

Starfsreynslan mín er ekki mikil þar sem ég hef verið aðallega í námi en ég hef kennt töluvert meðfram náminu, mestmegnis tölfræði og aðferðarfræði, bæði í sálfræði- og stjórnmáladeild. Einnig hef ég unnið við að aðstoða við rannsóknir í Háskólanum. Annars hef ég unnið mikið með fötluðum í sumarstörfum mínum, til dæmis á sambýli, hæfingarstöðvum og sumarnámskeiðum.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég held að það nýtist manni vel að hafa farið í gegnum rannsóknarmiðað nám í Háskólanum, það hefur þjálfað mig í gagnrýnni hugsun og ég hef lært að skoða mál mjög vel frá öllum hliðum, skoða bakgrunninn vel og taka þannig upplýstar ákvarðanir. Ég er vön félagsstörfum, vön að vinna í samvinnu við aðra og leita lausna.

Af hverju býður þú þig fram

Í sannleika sagt þá var það af því að fólk var farið að pikka í mig úr öllum áttum og spyrja hvort að ég ætlaði ekki að bjóða mig fram í Kópavogi. Ég tók mér góðan tíma í að hugsa um það, og mér fannst ég einhvern veginn bera þá ábyrgð að gera það. Ég er ekki hinn týpíski frambjóðandi sem hefur alltaf ætlað sér í stjórnmál, ég sá það reyndar bara alls ekki fyrir mér fyrir nokkrum árum síðan. Svo kynntist ég Pírötum í árdaga flokksins 2013 og heillaðist af grunngildum þeirra um gagnrýna hugsun, lýðræði og áherslu á að taka vel upplýstar ákvarðanir í samráði við þá sem málin varða. Ég var svo varaþingmaður á fyrsta kjörtímabili flokksins og sat á Alþingi í fjarveru Ástu Guðrúnar. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að búa til betra samfélag.

Áhugamál

Ég hef mjög gaman af því að ferðast, ég fór bakpokaferðalög til suður Ameríku og til Kína og suðaustur Asíu, sex mánuði hvort. Ég hef líka alla tíð verið virk í félagsstörfum, ég hef verið í björgunarsveit frá því að ég var 13 ára í unglingadeild, varð svo skátaforingi í seinni tíð, stýrt nemendafélögum og setið í foreldraráði í leikskólanum. Mér finnst rosalega gaman að vera úti í náttúrunni, við fjölskyldan ferðumst mikið bæði innanlands og utan og erum yfirleitt utandyra að brasa eitthvað með börnin um helgar.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Það áherslan á gagnrýna hugsun og að taka vel upplýstar ákvarðanir, hvernig fyrri ákvarðanir geta alltaf sætt endurskoðun og afstaða til hugmynda er óháð því hver kemur fram með hugmyndina. Það er þetta hlutleysi og gagnrýni í hugsun.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Ég er ekki mikill bíómyndaglápari og hef aldrei horft á margar af þessum myndum sem “allir hafa séð”, til dæmis Lord of the rings, Harry Potter, Matrix og Godfather!