Guðmundur Arnar Guðmundsson 2018-05-21T10:45:35+00:00

„Ég hef verið vitni að því hvaða afleiðingar það hefur þegar pólitíkin hefur haft slæm áhrif á íbúana þegar stjórnendur missa sjónar á hlutverki sínu“

Guðmundur Arnar Guðmundsson

4. sæti í Reykjanesbæ

Aldur

38 ára

Maki/börn

Ég er einstæður faðir og á þrjár dætur og einn son sem býr hjá mér.

Hvar ólstu upp

Ég ólst upp í Hafnarfirði og átti heima þar til ég var tvítugur. Annars hef ég átt einnig heima í Reykjavík og stuttan tíma í Garðabæ. Á mínum yngri árum var ég lengi vel með aðra löppina öll sumur í Fljótshlíðinni við Hvolsvöll þegar móðir mín fór að vinna sem húsfreyja á sveitabæjum þar. Ég á margar góðar minningar þaðan sem mér þykir mjög vænt um. Ég flutti upp á Ásbrú árið 2007 og hef verið hér síðan og kunnað vel við mig. Mér hefur farið að þykja mjög vænt um bæjarfélagið og íbúana hér.

Menntun

Ég er menntaður Sagnfræðingur. Útskrifaðist með BA gráðu úr Háskóla Íslands. Þar á undan útskrifaðist ég úr hugvísindadeild Keilis eftir að hafa klárað Menntastoðir M.S.S.

Starfsreynsla

Árið 2010 hætti ég að vinna á sjó, eftir 14 ár sem háseti. Ég hóf þá námsferil minn með það markmið að skapa mér nýja framtíð og nýjan starfsgrundvöll. Árið 2016 hóf ég drauma vinnu mína sem kennari í sögu hjá Keili og líkar mjög vel.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég hef verið tengdur starfi Pírata síðan það ar stofnað hér í Reykjanesbæ. Ég tók þátt í kjördæmaráði Pírata fyrir Suðurkjördæmi árið 2016. Þar fyrir utan hef ég tekið þátt í ýmsum félagsstörfum, m.a. formaður foreldraráðs Háaleitisskóla. Að auki hefur starf mitt sem kennari gefið mér mikla reynslu sem ég efast ekki um að nýtist mér í sveitarstjórnarstarfinu.

Af hverju býður þú þig fram

Mér þykir svo vænt um bæjarfélagið og hef verið vitni að því hvaða afleiðingar það hefur þegar pólitíkin hefur haft slæm áhrif á íbúana þegar stjórnendur missa sjónar á hlutverki sínu. Það að bjóða sig fram er að lýsa því yfir að viðkomandi er reiðubúinn að þjóna íbúnum. Grunngildi Pírata eru að mínu mati bráðnauðsynleg fyrir Reykjanesbæ svo það er mín von að geta leitt inn í stjórnsýsluna aukna ábyrgð og gagnsæi. Það er á ábyrgð stjórnenda að íbúar séu upplýstir um málaferli og veita þeim aðgang að öllum ákvarðanatökum sem bæjarstjórnin tekur því hún er þjónn fólksins, ekki sín eigins.

Áhugamál

Saga. Já ég er nörd.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Fyrir utan það sem áður hefur verið sagt um gagnsæa stjórnsýslu og ábyrgð stjórnenda er það íbúalýðræði sem skiptir mig miklu máli. Íbúar Reykjanesbæjar eiga að hafa rétt á því að geta kallað til bindandi íbúakosninga um málefni sem þau telja ganga gegn hag bæjarins.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Ég grét þegar síðasti þátturinn af Friends lauk. Já ég viðurkenni það og ég horfi stundum á þættina aftur en sleppi alltaf síðasta þættinum.