Þórólfur Júlían Dagsson 2018-05-21T10:46:48+00:00

„Að valdefla hina valdaminni gegn hinum valdameiri. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Gagnsæi, að allir hafi aðgang að upplýsingum sem þá varða og þessi áhersla á friðhelgi einkalífs.“

Þórólfur Júlían Dagsson

1. sæti í Reykjanesbæ

Aldur

Ég er 30 ára, verð 31 á þessu ári.

Maki/börn

Ég á eina dóttur sem er nýorðin sex ára og er einhleypur.

Hvar ólst upp

Ég elst upp í Reykjanesbæ, man fyrst eftir mér þegar ég bjó Faxabrautinni og mín fyrsta minning er þegar ég týnist á reiðhjóli þegar ég var að kanna heiminn. Man eftir því að þegar ég var búinn að fara hring í kringum hverfið að þá kom mamma hlaupandi á móti mér í panikki. Við fluttum svo upp í Heiðarholtið og ég ólst upp þar, það var mjög góð barnæska að geta notið þess frelsis að vera úti i móanum, að týna máfaegg, byggja kofa og byggja snjóhús á veturnar. Það er dásamlegt og byrjunin á minni ævi.

Menntun

Ég er með vélstjórnarréttindi upp að 24 metrum 750 kílóvött, ég er með skipstjórnarréttindi upp að 12 metrum, ég er útskrifaður fisktæknir úr Fisktækniskóla Íslands og ég er með vinnuvélaréttindi.

Starfsreynsla

Ég hef starfað við ýmislegt. Fyrsta atvinnan var Vinnuskólinn, svo beitingar, byrjaði ungur í því. Beitti mikið í Grindavík með þáverandi tengdapabba sem kenndi mér beitingar. Fór svo yfir í Keflavík að beita þar. Ég fór í framhaldsskóla en kaus vinnuna fram yfir. Ég er búinn að vinna á dekkjaverkstæði, búinn að vinna á Keflavíkurflugvelli við hin ýmsu störf. Þegar ég var 20 ára gamall fer ég á sjóinn. Ræð mig á frystitogara og er þar í tvö ár. Svo hef ég unnið á sjó eftir þar. Ég er búinn að vera að draga saman seglin í því og er kominn aftur upp á Keflavíkurflugvöll.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég hef mikla reynslu af því að vinna með fólki, mikla reynslu af því að skipuleggja, sérstaklega viðburði og slíkt. Það er mjög mikilvægt í sveitastjórnarmálum að vera mjög tengdur við fólkið í bæjarfélaginu. Ég tel mig geta gert það mjög vel. Ég á auðvelt með að tileinka mér ákveðin viðfangsefni og brjóta þau niður og kynna mér allar hliðar á málum, til dæmis kísilverinu eða sjómannadeilunni og komast að niðurstöðu. Ég er líka opinn fyrir því að ræða mismunandi hugmyndir og gera það á óhlutdrægan hátt. Ég hef brennandi áhuga á sveitarstjórnarmálum og landspólitík. Ég held að mín sterkasta hlið er að ég næ góðri tengingu við fólk og ég veit að það er mikilvægt. Það þarf að valdefla fólk og koma því í í skilning um það að við eigum að reka þetta saman en ekki bara einhverjir 11 einstaklingar í sveitastjórn.

Af hverju býður þú þig fram

Ég er að bjóða mig fram af því að ég hef tekið virkan þátt í sveitastjórnarmálum, þegar það kemur til dæmis kísilveri United Silicon, aðbúnaði verkafólks í Reykjanesbæ. Sérstaklega Pólverjarnir sem hafa verið fluttir inn sem vinnuafl og aðbúnaði þeirra er oft ekki vel sinnt. Þetta er ákveðinn hópur sem á engan málsvara og við verðum sem samfélag að eiga samtal við hópinn. Ég hef líka fylgst með fjármálum sveitarfélagsins og það þarf að kanna ýmis mál. Það var allt selt á sínum tíma eins og til dæmis HS Orka. Allar þjónustubyggingar sem bærinn átti voru seldar, heilbrigðisstofnunin okkar er illa rekin og ég vil skoða þetta og breyta þessu.

Áhugamál

Eitt af mínum aðaláhugamálum eru lyftingar og líkamsrækt, stunda hana mikið. Stjarnfræði líka en það hefur legið á milli hluta, pólitíkin er mjög mikilvæg fyrir mig og eitt af mínum stærstu áhugamálum og mestur tími fer í það, bæði í Pírötum og í félagasamtökum, t.d. Andstæðingum stóriðju í Helguvík og Íbúafélag Suðurnesja. Ég hef gaman að bílum en hef ekki sinnt því upp á síðkastið, ég hef áhuga á náttúruvernd og er mikill náttúruverndarsinni.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Að valdefla hina valdaminni gegn hinum valdameiri. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Gagnsæi, að allir hafi aðgang að upplýsingum sem þá varða og þessi áhersla á friðhelgi einkalífs.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Dóttir mín er fædd í Bandaríkjunum og er með bandarískan ríkisborgararétt.