Dóra Björt Guðjónsdóttir 2018-05-21T10:28:20+00:00

„Við Píratar erum upptekin af því að dreifa valdi. Við viljum hlusta á fólk, eiga í samskiptum og samtölum við almenning hvernig hlutirnir eiga að vera.“

Dóra Björt Guðjónsdóttir

1. sæti í Reykjavík

Aldur

Ég er 29 ára

Maki/börn

Það er enginn maki og engin börn.

Hvar ólstu upp

Ég er alin upp í Elliðarárdalnum í Reykjavík, fyrir neðan Ártúnsholtið. Ég fæddist í Vesturbænum, á Ásvallagötunni og við fluttum í Elliðarárdalinn þegar ég var þriggja eða fjögurra ára. Ég sór þess dýran eið að flytja til baka og nú er ég komin aftur í Vesturbæinn. Ég ólst upp meðal trjánna svo að ég var mikið að klifra. Það var stórt tré sem ég klifraði upp í með bók og las, ég hvarf líka oft niður í Elliðarárdal að hoppa í fossa og synda í Elliðaránni. Ég flutti líka til útlanda og hef búið á ýmsum stöðum, Noregi, Þýskalandi, Belgíu og flutti heim 2006 þaðan.

Menntun

Ég er með bachelor gráðu í heimspeki frá Háskólanum í Osló og bachelor í alþjóðafræði frá sama skóla. Sem hluta af þessu námi tók ég líka svolítið í bókmenntafræði. Ég er núna skráð í meistaranám í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands og er að klára fyrsta árið mitt í vor, svona um það bil af því að ég þurfti að segja mig úr einum kúrs hvora önn vegna prófkjörs og kosningabaráttu.

Starfsreynsla

Ég hef unnið mikið sem leiðsögumaður á ýmsum söfnum, bæði hérlendis og erlendis, Árbæjarsafni, Ibsen safninu, norsku konungshöllinu, Menningarsögusafninu í Osló og sérstaklega fyrir norska túrista á Árbæjarsafninu. Svo hef ég unnið á Evrópuþinginu, fyrir Evrópuþingmann Pírata í nokkra mánuði 2017. Einnig hef ég unnið á leikskóla, bæði hér og í Noregi og sem kennari í grunnskóla í Noregi í hálft ár og núna síðast sem aðstoðarkona fyrir fatlaðan mann, með náminu.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég er búin að vera mjög virk í Pírötum við skipulagninu félagsstarfs. Ég var formaður Ungra Pírata og er núna formaður Femínistafélags Pírata og ég hef komið að ýmsum hlutum í Pírötum, hjálpað til við skipulagningu stórra viðburða, aðalfundar, framtíðarsmiðju og verið virk í stefnumótunarvinnu. Reynslan af Evrópuþinginu er að mestu við samskipti og ýmislegt tilfallandi sem fylgir rekstri þingskrifstofu. Þar lærði ég mjög margt um samskipti, tengsl við fjölmiðla og að búa til minnisblöð fyrir viðtöl fyrir þingmanninn, hana Julia Reda. Ég þurfti þar af leiðandi að setja mig mjög hratt í ýmis mál til þess að geta útskýrt það fyrir henni. Ég tel líka að námið mitt hafi komið sér mjög vel fyrir þetta starf, heimspekin er mjög þung kenningalega séð og ég hef lært að lesa erfiða texta og greina þá, ég hef þróað með mér analýtíska hæfni sem kemur sér gríðarlega vel í öllu sem ég geri, t.d. skýrslugerð, setja sig hratt inn í flókin mál og ég á auðvelt með að skilja kenningar og analýtíska flókna hluti. Ég hef talsverða þjálfun í miðlun, bæði sem kennari og sem leiðsögumaður, það hefur líka komið sér vel að miðla upplýsingum á aðgengilegan hátt og þannig að fólk nenni að hlusta. Mér finnst mjög gaman að taka flókin mál og gera þau áhugaverð og þá kannski mál sem gætu hljómað þurr og leiðinleg. Ég hef líka umfangsmikla félagsmálareynslu, meðal annars tengdri femíniskri baráttu og baráttu fyrir bættum kjörum innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks. Svo má ekki gleyma að ég vann hjá Stúdentaþingi Oslóarháskóla sem framkvæmdastjóri.

Af hverju býður þú þig fram

Ég flutti heim frá útlöndum út af Pírötum af því að Píratar blésu mér von í brjóst um að það væri hægt að gera margt betur. Annars hefði ég sennilega ekki flutt heim. Ég tel að okkar sé brýn þörf í sveitarstjórnamálum. Við Píratar erum upptekin af því að dreifa valdi. Við viljum hlusta á fólk, eiga í samskiptum og samtölum við almenning hvernig hlutirnir eiga að vera. Ég held að það sé einmitt leiðin. Ég heyri á fólki að þessu sé ábótavant og þetta er okkar málefni. Þetta er eitthvað sem skiptir máli í hlutum fatlaðs fólks, innflytjenda, en líka í hlutum eins og deiliskipulagi, borgarskipulagi, aðalskipulagi og þetta skiptir gríðarlegu máli og þetta er eitthvað sem allir eru að kalla eftir, dreifa valdi og hleypa fólki að ákvarðanatöku. Ég held að ákvarðanir verði betur teknar, ég held að peningar verði betur nýttir, ég held að fólk verði ánægðara en mig langar líka bara að búa til borg og samfélag sem að fólk getur hugsað sér að velja yfir samfélög erlendis. Búa til borg sem er samkeppnishæf við borgir í nágrannalöndunum. Það er mikið af fólki sem fer til útlanda í nám og hættan er sú að það komi ekki aftur heim ef borgin er ekki góð. Ég sjálf hefði ekki komið aftur heim nema út af Pírötum af því að ég trúi því að Píratar séu þetta breytingarafl sem getur og muni breyta þessu samfélagi og gert það betra.

Áhugamál

Ég hef áhuga á mjög mörgu og það er mjög fyndið að ef ég fer að setja mig í eitthvað mál þá fer ég að hafa mikinn áhuga á þeim. En ég hef áhuga á heimspeki, kenningum og hugmyndafræði um það hvernig heimurinn á að vera. Ég hef áhuga á náttúrunni, útiveru, fjallgöngum, mér þykir vænt um að vera í tengslum við náttúruna. Ég hef áhuga á tónlist, hún skiptir mig gríðarlega miklu máli og hlusta þá sérstaklega mikið á indie-rokk-popp og líka klassíska tónlist, rafræna tónlist, uppáhalds bandið mitt er Sigurrós. Mér finnst gaman að dansa afródans og dansa það mikið. Ég hef áhuga á leiklist og leikhúsi, stundaði leiklist í MH og var líka í Götuleikhúsinu eitt sumar hjá Reykjavíkurborg.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Þetta er fáránlega erfið spurning af því að ég lít á hugmyndafræði Pírata sem einhvers konar regnhlíf þar sem að regnhlífin heitir lýðræði og gildin okkar eru það sem að regnhlífin samanstendur af. Við gætum kannski líka sagt að þetta sé eins og tré og greinarnar eru grunngildin og ég kom inn í Pírata útaf þessari lýðræðishugsjón og hef trú á því að lýðræðið sé það sem að geri ákvarðanir betri og samfélagið okkar réttlátara. En á meðal gildanna eru hlutir eins og tjáningafrelsi, upplýsingafrelsi, fjölmiðlafrelsi sem skiptir mig mjög miklu máli. Lýðræði er frjálslyndi líka og snýst um það að dreifa valdi og að vilja ekki hafa allsráðandi stjórnanda. Jafnrétti til menntunar, við þurfum að búa til menntakerfi þar sem fólk lærir að vera öflugir, gagnýnir lýðræðisborgarar og menntun þarf að vera aðgengileg öllum og þarf að vera skipulögð á þann hátt að við lærum gagnrýna hugsun. Ég myndi segja að þetta tré sé það sem skiptir mestu máli en ef ég þyrfti að velja eitt þá myndi ég kannski segja fjölmiðlafrelsi og tjáningafrelsi og mér finnst líka félagafrelsi mikilvægt.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Þegar ég held ræður þá rappa ég oft í staðinn. Geri þetta t.d. í brúðkaupum og svona. Ég er nokkuð góð í afródansi, ég tala fjögur tungumál. Ég er mikill dýraunnandi með ofnæmi. Systir mín er/var fræg, það er Sigrún með Gyðju Collection, við erum mjög ólíkar en samt mjög góðar vinkonur. Ég er líka að verða þrítug en ekki yngri eins og fólk heldur oft.