Rannveig Ernudóttir 2018-05-25T23:23:13+00:00

Þegar ég fór að átta mig á hversu mikið óréttlæti viðgengst í samfélaginu mínu og hversu mikil rentusóknarstefna, græðgi og lífsgæðakapphlaup fær að stýra okkur, á sama tíma og aðrir þurfa að líða skort og óréttlæti þá fóru að renna á mig tvær grímur.“

Rannveig Ernudóttir

4. sæti – Reykjavík

Aldur

38 ára 

Maki/börn

Ég er gift honum Jóa mínum, sem hefur verið með mér á ferðalagi í ansi mörg ár.

Börnin eru fjögur, þau Arnór sem er 21 árs háskólanemi (sem ég fæ að deila með mömmu hans), sem á mjög spennandi framtíð fyrir sér í vísindaheiminum. Huginn Þór 17 ára gamall framhaldsskólanemi, félagsmálatröll, tölvunörd og rökræðusnillingur mikil. Elísabet eða Lísa eins og við köllum hana sem verður 10 ára  á kjördag, en hún er með besta minni sem ég hef kynnst og mikil listakona! Næstur er hann Siggi okkar, Sigurður Reginn, sem er tæplega 5 ára og þar með lang yngstur af systkinum sínum. Hann er verkefnabarnið okkar sem gleður og kætir alla í kringum sig.

Við erum því með börn á öllum skólastigum og er hvert og eitt þeirra uppáhaldsbarnið okkar. 

Hvar ólst upp

Hér og þar, byrjaði ævina í Hlíðunum, fór þá yfir í Fossvoginn, svo Hafnarfjörð, Kópavog (og smá líka Súðavík þar í bland), Hveragerði, Fossvog aftur og Hlíðarnar aftur en enduðum svo í Grafarvogi, þá var ég orðin 11 ára gömul og ólumst við systkinin þar upp.
Ég gekk í Fossvogsskóla (með smá stoppi í grunnskóla Súðavíkur, Digranesskóla og grunnskóla Hveragerðis) og svo Réttarholtsskóla og var því sjaldnast búsett í sama hverfi og skólinn minn var í og tók alltaf strætó, í öllu veðri alla daga. Ég hafði ekki áhuga á mínum hverfisskólum og þurfti að treysta á það að festan á lífinu fengist útúr skólaumhverfinu, sem ég er mjög þakklát fyrir í dag. Skólagangan var ekkert alltaf auðveld og var ég lögð í einelti af kennara mínum þegar ég var í 3.bekk og hafði það auðvitað mikil áhrif á samskipti mín við skólasystkinin mín. En ég hélt áfram að vera með þeim í skóla alla okkar grunnskólagöngu sem ég tel að hafi verið rétt og góð ákvörðun. Ég er í samskiptum við marga af mínum gömlu skólafélögum og á t.a.m. eina æskuvinkonu þaðan, sem sá einmitt nýverið um veislustjórnina í brúðkaupsveislu okkar hjónanna. 

Menntun

Ég lauk grunnskólaprófi frá Réttarholtsskóla vorið 1995 en árin þar voru mjög sérstök, góð en líka erfið, svona eins og eru þau oft fyrir undarlega unglinga. Ég bjó þá í Grafarvogi og tók alltaf strætó á milli, sem gekk nokkuð áfallalaust á þeim tíma.

Þaðan lá leiðin í Fjölbraut í Breiðholti, á myndmenntabraut, en umhverfið þar drap alveg niður áhuga minn á slíku námi. Svo ég prófaði að fara í Menntaskólann við Sund og þá á tungumálabraut, en fékk hálfgert áfall við að skipta úr fjölbrautarkerfi yfir í bekkjarkerfi svo ég lét eitt ár duga þar og tók mér þá pásu frá námi. Fór að vinna á leikskóla og hóf einmitt mína fyrstu sambúð með manninum mínum. Ég mætti hins vegar aftur í Fjölbrautarskóla Breiðholts, haustið 1999, þá orðin kasólétt af Hugin mínum og lauk ég loksins stúdentsprófi, með aðstoð Reykjavíkurborgar, vorið 2003.

Haustið 2004 var ég komin í Háskóla Íslands og þá í guðfræði, sem var sérstakt þar sem ég hreinlega villtist þangað inn. Ég hef hins vegar ekki séð eftir því í svo mikið sem augnablik, því tíminn þar var æðislegur og útskrifaðist ég með BA í guðfræði vorið 2008, þá með Lísu mína einungis tveggja vikna gamla.

Ég var svo hvött af leiðbeinanda mínum í guðfræðinni, til þess að skoða nýlegt nám í boði í skólanum, og skráði mig í tómstunda- og félagsmálafræði, sem ég útskrifaðist svo frá í febrúar 2012. Það var aðeins praktískara nám en guðfræðin og sé ég fyrir mér að fara einhvern tíman í mastersnám í tómstundafræðinni.

Haustið 2012 skellti ég mér svo í master í trúarbragðafræðinni og á eftir að ljúka því, en ég varð einmitt ólétt af Sigga á þeim tíma. Ég er búin með 20 eininingar af ritgerðinni minni, svo það er lítið eftir og mun ég án efa klára hana við fyrsta tækifæri, enda þykir mér efnið mjög áhugavert, þar sem ég er að bera saman Paradís úr Kóraninum við Valhöll úr norrænu goðafræðinni.

Já og vorið 2016 nældi ég mér svo í yogakennararéttindi svo ég get byrjað alla morgna á að skella öllum borgarfulltrúum í gegnum sólahyllingu, við munum öll hafa gott af því.

Starfsreynsla

Starfaði við ýmis klassísk láglaunastörf, barnagæslu, afgreiðslu, þrif, leiðbeinandi í leikskólum, vinnuskólinn, bæði sem nemandi og svo sem leiðbeinandi í samtals sjö sumur. Aðstoðaði fatlaða samnemendur í háskólanum og svo frístundastarf barna og unglinga.

Undanfarin fjögur ár hef ég starfað sem tómstundafræðingur í félagsstarfi eldri borgara og unglinga. Bæði hjá Reykjavíkurborg og hjá Hrafnistu. Þegar ég fór í tómstundafræðina hafði ég starfað eitt ár í félagsmiðstöðinni Fjörgyn og verið tvö sumur beint á eftir með hópa hjá Vinnuskólanum við sama skóla og fann mig í starfi með unglingum. Það kom því skemmtilega á óvart, í náminu, að á meðan ég var í vettvangsnámi í Aflagranda, að félagsstarf eldri borgara höfðaði jafnvel enn betur til mín. En mér þykir þó sérlega skemmtilegt að starfa með báðum hópum.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarkona

Er íbúí, starfsmaður á gólfi og foreldri í borginni. Er manneskja! 

Af hverju býður þú þig fram

hef lengi haft áhuga á samfélagsmálum. Þegar ég fór að átta mig á hversu mikið óréttlæti viðgengst í samfélaginu mínu og hversu mikil rentusóknarstefna, græðgi og lífsgæðakapphlaup fær að stýra okkur, á sama tíma og aðrir þurfa að líða skort og óréttlæti þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég áttaði mig fljótlega á því að ef ég vildi sjá breytingar að þá yrði ég að vera ein af þeim sem ekki kvartaði í eldhúsinu heima hjá mér eða á samfélagsmiðlunum. Ég yrði að leggja eitthvað á mig. Ég byrjaði á að vera virk í alls konar félagsstörfum og stjórnum. Þá helst í stjórnum foreldrafélaga eða félagasamtökum sem láta málefni barna sig varða, en færði mig svo yfir í pólitíska umhverfið.

Ég vil taka þátt í að halda áfram með þær breytingar sem Píratar hafa þegar komið af stað, það er fullt eftir og þá er enginn betri í að vera Pírati en Píratar.

Ég lít sem svo á að kjörnir fulltrúar, í sveitarfélögum og á alþingi, séu í þjónustuhlutverki, þó svo að framkvæmdin á þeirri þjónustu sé ólík. Áherslan er þá að sjá til þess að þjónusta sé til staðar sem og að réttindindum borgara sé fullnægt. Ég sjálf hef mjög ríka þjónustulund og hef alltaf haft. Ég lít t.d. sem svo á að starf mitt í félagsstarfi eldri borgara, sé þjónusta sem ég veiti þeim og er mikilvægt að muna að ég vinn á heimilum þeirra, en þau búa ekki á vinnustað mínum. Þessi orð heyrði ég fyrst hjá forstjóra Hrafnistuheimilanna og hef gert þau að mínum einkennisorðum í starfi mínu!

Áhugamál

Ég elska tónlist og að dansa, smekkurinn er vissulega víðfemur en ræturnar eru algjörlega í húsinu (e. house music) og drum’n’bass-inu, ég hef þó gaman af flestum tónlistarstefnum þegar upp er staðið og væri auðveldar að telja upp það sem ég hef ekki gaman af heldur en hitt.

Mér finnst æðislegt að ferðast, bæði um Ísland en líka erlendis, þótt það sé því miður ekki mikið um þann lúxus. Ég er svakalega mikil prjónakona og þykir fátt notalegra en sú iðja. Ég elska að synda og hjóla og svo finnst mér mjög gaman af því að fá gesti og sitja frameftir að spjalla.

Ég er umhverfisnörd og ferðast alltaf um með mitt eigið stálrör og bursta og flokka grimmt. Ég fæ illt í hjartað að sjá plast útum allt og vona að borgin haldi áfram að vera leiðandi í umhverfismálum. Það er engin framtíð án þeirrar áherslu!

Hef mjög gaman af ýmsum tímabilum hvað fatatísku varðar og elska að geta skipt algjörlega um fatastíl. Þá get ég mætt einn daginn í vinnuna í hettupeysu og strigaskóm en er svo mætt daginn eftir í 50’s kjól. Ég er mest hrifin af 20’s-60’s tímabilunum, en kannski minnst hrifin af núverandi tímabili.
Þetta er einhver nostalgía og mér finnst stórkostlegt að smella stundum í gang einhverjum gömlum góðum lögum sem ég ólst upp við hjá mömmu, í bland við tónlistina frá unglingsárunum. Tíundi áratugurinn var frábær!!!! Já og teiknimyndasögur, hver elska þær ekki?

Ég elska fólk og samfélög, sérstaklega unglinga og eldri borgara. Elska og sakna líka allra vina minna, sem undanfarin ár hafa verið svo vanræktir. Enda erum við öll alltaf vinnandi og ég sjál líka á kafi í sjálfboðaliðastarfi við að breyta og bæta heiminn. 

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Ég á erfitt með að velja á milli borgararéttinda og friðhelgi einkalífsins. Þá helst:

„Útvíkkun borgararéttinda skal miðað að styrkingu annarra réttinda.“ Og svo „Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.“

„Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

Píratar telja að allir eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.“

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við þurfum fleiri Pírata alls staðar, við erum fólkið sem leggur hvað mesta áherslu á borgararéttindi, friðhelgi einkalífsins og varðveislu þeirra enda hefur það sýnt sig að það er mikil þörf á því að vernda þessi sjálfsögðu mannréttindi! Bara það t.d. að vernda það að vinnandi fólk þurfi hvíld og þurfi mannsæmandi framfærslu, við erum stöðugt að berjast fyrir þessum atriðum. Það er þreytandi, en ofboðslega mikilvægt!

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Ég er guðlaus guðfræðingur sem drekkur ekki kaffi, enda ekki orðin fullorðin, en á samt á fullorðin börn!

Greinaskrif

Dagvistunarmál – byrjum á réttum enda, 25.5.2018
Greiningarferli tefur fyrir velferð barnanna okkar, 23. maí 2018
Barnavernd, ekki grýla!, 17.maí 2018
Fólkið okkar á betra skilið, 14. maí 2018
Uppbygging eftir hentisemi, 26. mars 2018
Takk Reykjavíkurborg, 23. mars 2018
Hættum þessu basli!, 7. febrúar 2018
Þín velferð er mín vegferð,