Sigurborg Ósk Haraldsdóttir 2018-05-21T10:29:18+00:00

„Umhverfismálin eru aðalatriðið, þau eru regnhlífin þar sem allt annað innan samfélagsins gerist.“

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

2. sæti í Reykjavík

Aldur

33 ára

Maki/börn

Maki er Björn Hákon Sveinsson, hann er sjúkraþjálfari og formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl. Ég á tvo stráka, Svein Jörund sem er níu ára og Frey Völund sem er þriggja ára.

Hvar ólstu upp

Ég er fædd og uppalin á Kjalarnesi. Það var dásamlegt að alast þar upp, í náttúru og sveit. Ég er yngst af sjö systkinum og var alltaf mikið úti með hestum en ég sakna þess mikið. Pabbi byggði húsið okkar árið 1979 og var með þeim fyrstu sem byggði í hverfinu. Ég bjó á Kjalarnesi þangað til ég fór í háskóla. Ég hef því upplifað að búa þar meðan sveitarfélagið var Kjalarneshreppur og svo þegar það sameinaðist Reykjavík. Ég ólst upp við að horfa á Reykjavík og það er dásamlegt útsýni. Persónulega elska ég að vera í sveitinni og vera með dýrunum. Ég var í námi á Hvanneyri, en hef líka búið á Akureyri, Ólafsfirði, og Húsavík.

Menntun

Ég hef lokið BS gráðu í Umhverfisskipulagi og mastersgráðu í Landslagsarkitektúr en ég er einnig hálfnuð með aðra mastersgráðu í Skipulagsfræði.

Starfsreynsla

Ég hef starfað aðallega á stofu sem heitir Yrki Arkitektar og hef verið þar í hönnun, skipulagi og verkefnastjórn. Ég hef líka kennt skipulagsfræði við Landbúnaðarháskólann sem er mjög gaman. Ég hef starfað við skógrækt og alls kyns garðyrkjustörf líka ásamt því að hjálpa til í sveitinni.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég sit í umhverfis- og skipulagsráði fyrir hönd Pírata í Reykjavík og þar hef ég setið sem áheyrnarfulltrúi á fyrri hluta kjörtímabilsins. Núna í lok kjörtímabilsins sprakk Framsókn í marga búta og þá fengu Píratar fulltrúa í þeim ráðum sem Framsókn var með. Ég er því fulltrúi í því ráði eins og stendur. Ég elska það hlutverk og brenn fyrir það. Námið mitt og þekking nýtast mér gríðarlega vel í að átta sig á því hvernig hlutirnir virka. Á Íslandi erum við bara ein stór fjölskylda en Reykjavíkurborg þarf hins vegar að keppa við aðrar borgir líkt og Osló og Kaupmannahöfn. Ég þekki til í báðum þessum borgum, hef búið í þeim og það er dásamlegt. Við þurfum að vanda okkur, við viljum ekki að unga fólkið okkar flytji burt. Af hverju ætti maður ekki að flytja út þar sem fólk hefur mun lengra fæðingarorlof, hærri tekjur, meiri frítíma og lífsgæði og maður þarf ekki að eiga bíl? Þarna þurfum við að gera betur.

Af hverju býður þú þig fram

Ég er að bjóða mig fram vegna þess að ég trúi því að við þurfum að gera svo miklu betur í umhverfismálum. Umhverfismálin eru aðalatriðið, þau eru regnhlífin þar sem allt annað innan samfélagsins gerist. Öll velferðarmál, félagsleg mál, skólamál, mannréttindamál, samgöngumál, þetta er allt undir umhverfisregnhlífinni því að við höfum bara eina Jörð. Hún er það sem við þurfum að passa. Við megum ekki ganga of mikið á auðlindirnar því að þá erum við að ganga á lífsgæði komandi kynslóða og þar erum við alls ekki að gera nóg. Íslendingar eru með neyslu á við 11 jarðir. Ef allir væru með neyslu á við Íslendinga þá myndi jörðin okkar alls ekki duga, langt því frá. Við mengum og erum með afskaplega óumhverfisvæna samgöngumáta. Þar eru mörg sóknarfæri. Þetta er það sem ég brenn fyrir og ástæðan fyrir því að ég býð mig fram. En það dugir ekkert að fá bara rosa öflugan leiðtoga sem ætlar að setja umhverfismálin á oddinn, það virkar bara ekki þannig. Við þurfum að vinna þannig að almenningur geti sett sínar áherslur á oddinn. Því almenningur hefur sýnt það að hann er miklu metnaðarfyllri í umhverfismálum heldur en kjörnir fulltrúar. Mér finnst líka mjög mikilvægt að leggja áherslu á samkennd í samfélaginu. Samkennd með hvert öðru, samkennd með náttúrunni og samkennd með dýrum. Ég held að við séum á þeim stað í mannkynssögunni að við erum búin að átta okkur á því að þetta er það sem að þarf að gerast, það er ekkert annað sem að leysir vandamálin, kerfin okkar eru ekki nógu góð og við þurfum alltaf að ganga út frá þessu sjónarhorni að aukin samkennd og samvinna er það sem leysir hlutina. Ég veit að Píratar eru sem betur fer sammála mér um þetta.

Áhugamál

Áhugamálin mín eru borgarmálin, hestamennska, bogfimi, skógrækt, vatnsmálun, teikning og listsköpun.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Ég ætla að vera rosalega Pírataleg og segja liður sex í grunnstefnunni sem er beint lýðræði. Það er það að réttur sé tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gagnsærrar stjórnsýslu. Ég held að þessi liður muni breyta okkar samfélagi hvað mest og fá sem flesta til að taka þátt. Það er þessi hugmynd um ‘crowdsourcing’ í stærra samhengi, ég held að það muni hafa áhrif á allt sem við gerum í framtíðinni. Það mun hafa áhrif gæði ákvarðana og allt það sem við gerum. Mér finnst þar vera mestu tækifærin.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Ég kann að skjóta af boga af hesti, fríhendis og berbakt.