Valgerður Árnadóttir 2018-05-23T14:53:24+00:00

„Það sem mér finnst mikilvægast í dag er að uppræta spillingu og breyta kerfinu eins og það er núna og þá eru gagnsæi og ábyrgð aðal grunngildin. Þau eru mér kærust.“

Valgerður Árnadóttir

5. sæti í Reykjavík

Aldur

38 ára.

Maki/börn

Ég er sjálfstæð móðir tveggja drengja, Ásgrímur 8 ára og Benjamín Árni að verða 18 ára.

Hvar ólstu upp

Ég fæddist í Reykjavík en flutti mjög ung til Svíþjóðar og bjó þar í 10 ár. Það má segja að ég hafi alist upp þar. Ég bjó í hippalegu samfélagi í Lundi, það mátti til dæmis ekki keyra inn í hverfið mitt, heldur þurfti að skilja bílana eftir fyrir utan. Það voru allir með grænmetisgarða og þetta var mjög frjálst samfélag en samt mjög strúktúrerað eins og Svíar eru, það vantar ekkert skipulag þó að það sé frjálst. Þetta var mjög gott og skemmtilegt samfélag og ég var í mikilli nálægð við náttúruna, átti mikið af gæludýrum og dýrum sem ég dró heim í þeim tilgangi að bjarga þeim, eins og vængbrotna fugla og lasna broddgelti. Þegar ég kom til Íslands 10 ára gömul þá var það svolítill viðsnúningur að búa í Reykjavík, það var ekki eins barnvænt og verndað umhverfi og í stað þess að klifra í trjám og fara á hestbak klifraði ég upp á múrveggi og fór í körfu fyrir aftan “Bíóborgina” með hinum krökkunum í Norðurmýrinni. Það tók mig fyrstu tvö árin að komast inn í íslenskt samfélag og sanna það að ég væri Íslendingur en ekki Svíi, eftir að ég lærði slangrið og fékk Levi´s buxur og hermannaklossa eins og hinir krakkarnir gekk mér betur félagslega. Sem unglingur var ég virk í leiklist í félagsmiðstöðinni Tónabæ, við settum upp leikrit árlega og það var mjög skemmtilegur og uppátækjasamur vinahópur. Það var ekkert internet þegar ég var unglingur, við héngum mikið í Tónabæ, heima hjá hvort öðru eða utandyra og fundum upp á ýmsu..

Menntun

Ég flakkaði milli menntaskóla, MS, FB, FÁ, aðallega vegna þess að ég var alltaf að taka frí til að starfa erlendis sem fyrirsæta en ég fór út til Milanó strax eftir 10 bekk og starfaði í mörgum borgum Evrópu næstu 4 árin. Ég varð svo móðir ung, að verða 21 árs og þá átti ég ennþá ár eftir af menntaskóla. Að verða móðir kom mér niður á jörðina, ég kláraði skólann og fór svo með tveggja ára son minn með mér í háskóla til Danmerkur og lærði innkaupastjórnun. (Fashion purchasing) Ég hef endurmenntað mig með ýmsum námskeiðum tengdum sjálfbærum framleiðsluaðferðum og innleiðingu vistvænna ferla í stærri og smærri fyrirtækjum.

Starfsreynsla

Ég hef aðallega unnið við innkaupastjórn hjá stærri og smærri fyrirtækjum síðustu 13 ár og nú síðast hjá 66°Norður í 4 ár. Ég hætti þar síðastliðið haust, stofnaði mitt eigið viðburðarfyrirtæki Puzzy Patrol sem sérhæfir sig í að skipuleggja viðburði með listakonum og femínískum talskonum til að styrkja og styðja konur í listum, fræða almenning um femínisma og skapa jákvæðan umræðugrundvöll og svo er ég einnig framkvæmdastjóri Samtaka Grænmetisæta á Íslandi og skipulegg alla þeirra viðburði eins og Veganúar, held fyrirlestra í skólum og á stofnunum, held utanum heimasíður og samfélagsmiðla og skrifa um veganisma, dýravernd og grænmetisfæði.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég hef verið mjög virk í félagsstarfi, bæði í foreldrafélögum Austurbæjarskóla og Vals og staðið að mörgum viðburðum. Ég var um tíma forvarnafulltrúi foreldra fyrir Miðborg og Hlíðar og vann í forvarnarstarfi fyrir unglinga. Reynsla mín sem framkvæmdastjóri Samtaka grænmetisæta á Íslandi kemur sér einnig mjög vel, ég er vön að verkstýra og tala fyrir framan fólk og við fólk, mér finnst mikilvægt að hlusta á ólík sjónarmið. Ég hef einnig verið virk í að hjálpa hælisleitendum sem koma til Íslands, bæði persónulega aðstoð og við að skipuleggja styrktartónleika og viðburði. Mér er mjög annt um bæði fólk og dýr og hef mikinn baráttuanda til að gera heiminn betri.

Af hverju býður þú þig fram

Ég hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum, reynt að leggja mitt af mörkum til að gera heiminn örlítið betri og skrifað gagnrýnispistla um íslenskt stjórnarfar og pólitík og nú í vetur þótti mér rétti tíminn til að láta framkvæmd fylgja orðum. Ég hef fylgst með Pírötum frá stofnun þeirra, alltaf kosið þá og helst samsamað mig þeirra hugsjónum og ég er gífurlega þakklát fyrir það hvað þeir tóku mér opnum örmum og með þeim vil ég gera borgina betri fyrir bæði menn og dýr.

Áhugamál

Ég er mjög aktív, og kann illa að slappa af, ég stunda crossfit og jóga á veturna og fer á fjöll á sumrin. Ég hlusta á tónlist frá morgni til kvölds og þeyti skífum við ýmis tilefni í frítíma mínum þegar ég er ekki að hugsa um börn og bú. Ég er mikið nörd í umhverfis- og dýravernd og er það sennilega mitt helsta áhugamál, ég horfi á heimildamyndir, afla upplýsinga á netinu, les bækur og skrifa um þau málefni ásamt því að vinna að þeim með SGÍ.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Beint lýðræði og gagnsæi stjórnsýslunnar í heild. Ég vil breyta kerfinu svo að það þjóni íbúum þessa lands. Ég hrífst mjög að hugmyndafræði borgaralauna og treysti Pírötum fremur en öðrum flokkum til góðra verka því þeir eru þeir einu sem hafa staðfast og ötullega barist fyrir nýrri stjórnarskrá en hún er grundvöllur að þeirri lýðræðislegu framtíð sem ég vil sjá, þar sem almenningur ræður för.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Ég hlusta á “gangsta rap” með morgunkaffinu til að koma mér í gang fyrir daginn og teknó til að einbeita mér þegar ég er að lesa og vinna í flóknum fjármálaskýrslum og innkaupastefnum. Tónlist hefur mikil áhrif á líðan mína og ég á playlista fyrir allar aðstæður, er sönglandi allan daginn og tek ballöður þegar ég er ein í bílnum og sturtunni.

Greinaskrif

Hið góða líf, 7.5.2018

Typpi, hvalir og Kristján Loftsson, 21.4.2018

Það sjá allir hvað er í gangi, 12.4.2018

Enga ísbirni í Húsdýragarðinn, ( eða þvottabirni..), 21.3.2018

Haltu kjafti og vertu sæt!, 8.3.2018

Af hverju ertu Pírati?, 22.2.2018

Gleymda kynslóðin í húsnæðisvanda, 13.2.2018

Aukið framboð grænmetisfæði í skólum og stofnunum Reykjavíkurborgar, 12.2.2018

Hvernig minnka grænmetisætur kolefnissporið?, 26.10.2017