Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir 2018-05-21T10:18:26+00:00

„Við þurfum að breyta grunninum, það er þess vegna sem ég vil vera í pólitík, vera í sveitastjórnarmálum. Ég vil kryfja allt til grunna og byggja upp eftir grunngildunum.“

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir

1. sæti í Hafnarfirði

Aldur

Ég er 41 árs

Maki/börn

Ég er í sambúð með Vilhelmi Páli og við eigum tvo stráka, 8 ára og 18 mánaða.

Hvar ólstu upp

Ég fæddist á Fæðingarheimilinu í Reykjavík og bjó fyrstu tvö árin á Íslandi, flutti tveggja ára til Danmerkur þar sem ég bjó næstum því í 9 ár í Árhúsum, kom heim þegar ég var á tólfta ári og flutti þá í íbúðina sem ég fæddist í, sem var í Breiðholtinu. Pretty much síðan þá hef ég verið út um allt, út um allt land, flutti til Danmerkur, var í heimavistarskóla meðan mamma mín bjó í Bandaríkjunum, og hef búið alls staðar nema á Vestfjörðum og Austfjörðum. Hef sem sagt búið fyrir norðan, á Vesturlandi og á Suðurlandi.

Menntun

Ég er þroskaþjálfi og ég er líka með BA í félagsráðgjöf, ég tók það áður en ég fór í þroskaþjálfann. Ég er með diplóma í fötlunarfræðum og er núna í opinberri stjórnsýslu í hlutanámi með þessu öllu.

Starfsreynsla

Ég er hinn týpíski Íslendingur sem hef unnið síðan ég var í grunnskóla. Ég fór að vinna í Sólheimum í Grímsnesi. Þar fór ég fyrst að vinna með fötluðu fólki og þar opnaðist alveg gígantískur heimur sem að ég einhvern veginn komst að ég hefði verið staurblind fyrir svo mörgu, jafnvel þótt að ég hef alltaf verið þessi manneskja sem vill berjast fyrir mannréttindum og verið með sterka réttlætiskennd, þá fattaði ég ekki fyrr en ég fór á Sólheima að það væri í raun og veru hægt að gera meira en að vilja mannréttindi. Í framhaldi af því hef ég verið að vinna í málefnum fatlaðs fólks, meira og minna síðan þá. Mest öll mín starfsreynsla er með fötluðu fólki og fyrir fatlað fólk og að þessum málefnum. Ég hef unnið á heimilum með fatlað fólk, unnið í atvinnuráðgjöf fyrir fólk sem hefur dottið út af vinnumarkaði og þá sem þurfa stuðning á vinnumarkaði, hef unnið í þjónustuíbúðum og mörgum útgáfum af slíkum heimilum. Þess á milli hef ég líka unnið í sjálfboðaliðastarfi með Rauða krossinum og dýravelferð.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Allt það sem ég hef verið að gera í mínum störfum snýst að réttindum fólks. Það sem Sólheimar lögðu upp með var að laga það sem er að og breyta kerfinu en ekki bara að fylgja með kerfinu.

Af hverju býður þú þig fram

Við erum búin að ganga í gamla kerfinu óheyrilega lengi, við erum alltaf að byggja ofan á í staðinn fyrir að fara í grunninn og breyta neðan frá og upp. Við þurfum að breyta grunninum, það er þess vegna sem ég vil vera í pólitík, vera í sveitastjórnarmálum. Ég vil kryfja allt til grunna og byggja upp eftir grunngildunum.

Áhugamál

Áhugamálin mín eru allt sem ég er að vinna að núna, mannréttindi, það má kannski frekar segja að þau séu ástríðumál. En fyrir utan það hef ég mikinn áhuga á bókmenntum, ég er mikið fyrir Pratchett og Gaiman. Ég er rosalega mikill Comic book aðdáandi. Transmetropolitan er í miklu eftirlæti og Johnny The Homicidal Maniac og Fables.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Það geta flestir tekið undir með að fyrsta greinin og undir henni þrír liðirnir eru keðjuverkandi í gegnum allt saman. Ég myndi segja að til þess að geta tekið afstöðu, til þess að geta tekið þátt í beina lýðræðinu, til þess að geta verið upplýsingarnar, það eru völdin. Til þess að geta vitað hvað fólk er að segja þér, hvort að það sé að segja þér satt eða hvort það sé að segja þér allt sem þú átt rétt á að vita, þá þarftu upplýsingarnar og þarft að vera með gagnrýna hugsun í öllum málefnum. Þú verður að taka gagnrýna hugsun í gegnum allar hinar stefnurnar líka. Það er mitt fyrsta mál.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Ég er með arfgengan hrörnunarsjúkdóm sem heitir Usher heilkenni. Það felur í sér að kuðungarnir hrörna og sjónsviðið mitt þrengist í rörsjón. Ég er þó einstakt tilfelli þar sem flestir á minum aldri eru komin á það stig að vera orðin lögblind og döff (heyrnarlaus).