
„… eftir að Andstæðingar stóriðju í Helguvík spruttu upp sem samtök þá fór fólk að þora að tjá sig og þess vegna vil ég opna í bæjarfélaginu þá valdaminni gegn þeim valdameiri og hafa opið lýðræði og að fólk taki þátt í sínu samfélagi.“
Margrét Sigrún Þórólfsdóttir
3. sæti í Reykjanesbæ
Aldur
Ég er 57 ára
Maki/börn
Ég er einhleyp og á tvo uppkomna drengi sem eru báðir Píratar.
Hvar ólst upp
Ég er fædd og uppalin í Keflavík, ég er meira að segja fædd í heimahúsi. Ég hef reyndar búið í tvö ár á Ólafsfirði, ákvað að breyta aðeins til og fór þangað sem leikskólakennari. Í föðurættinni á ég ættir að rekja þangað.
Menntun
Ég er leikskólakennari, útskrifaðist sem leikskólakennari 1987, menntaði mig svo meira sem grunnskólakennara, útskrifaðist að ég held 2006.
Starfsreynsla
Ég er kennari í Njarðvíkurskóla í Reykjanesbæ. Það er frábær skóli. Ég vann við símsvörun hjá leigubílastöð þegar ég var í skólanum að taka leikskólakennarann. Þá var maður að vinna aðallega á kvöldin og fram á nóttina og svo 2007-8 þá var ég að vinna hjá Kynnisferðum að selja í rúturnar hjá flugstöðinni.
Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona
Ég tel að menntunin mín geti reynst vel. Ég er búin að vera í Andstæðingum stóriðju í Helguvík og það á eftir að koma sér vel. Ég er með hópi að reyna að stofna íbúafélag Suðurnesja sem er óhagnaðardrifið leigufélag en við erum ekki komin með kennitölu þrátt fyrir átta mánaða umsóknarferli hjá Ríkisskattstjóra. Þeir eru alltaf að láta okkur fá nýja og nýja pappíra. Svo hef ég verið að fara á þessa fundi og fylgjast með, ég tók þátt í að endurnýja, og var með í hópi, endurnýja menningarstefnu Reykjanesbæjar. Ég hef verið dugleg sækja fundi þar sem ég get náð í fræðslu um Reykjanesbæ og bæjarmál.
Af hverju býður þú þig fram
Í gegnum Andstæðinga stóriðju í Helguvík og því sem ég hef tekið þátt í þar, hef ég tekið eftir svo mikilli þöggun í bæjarfélaginu mínu og það hefur enginn viljað tala um neitt og enginn þorað að segja neitt af því að þá ertu niðurrifsseggur eða neikvæður og þetta hefur verið notað þannig að á bæjarbúa að þeir hafa ekki þorað neitt að tjá sig. En eftir að Andstæðingar stóriðju í Helguvík spruttu upp sem samtök þá fór fólk að þora að tjá sig og þess vegna vil ég opna í bæjarfélaginu þá valdaminni gegn þeim valdameiri og hafa opið lýðræði og að fólk taki þátt í sínu samfélagi. Það finnst mér mjög mikilvægt og vil berjast fyrir því.
Áhugamál
Ég hef ofsalega gaman að öllu handverki, prjóna og sauma og allt það. Svo er annað áhugamál sem ég hef ekki stundað lengi en ætla að bæta úr því og það er stangveiði. Mér finnst ofsalega gaman að fara að veiða. Tölvur, tölvuleikir, ég ákvað það þegar börnin mín voru að alast upp að ég skyldi prufa alla tölvuleiki sem þau voru að spila, bara til að vita hvað væri úti í netheimum, komast að því hvort umhverfið væri gott eða slæmt og það hefur fylgt mér alla tíð. Ég á eftir að njóta góðs af þessu þegar ég fer á elliheimili að sitja bara og spila tölvuleiki til að stytta manni stundir.
Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli
Þetta opna lýðræði og valdefla bæjarbúa og valdefla þá sem minna mega sín. Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétturinn skiptir mig máli sem og gagnsæi og ábyrgð.
Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig
Það vita ekki margir að ég spila tölvuleiki og stundum þegar það uppgötvast í mínu starfi með börnunum þá verða þau mjög hissa.