Alexandra Briem 2018-05-21T10:30:25+00:00

„Ég vil gera þetta vel og vil sýna okkur sé alvara í Pírötum, okkar stefnur og áherslur um lýðræði, gagnsæi og aðgengi eigi við borgina, þetta á við í sveitarstjórn líka, ekki bara á landsvísu.“

Alexandra Briem

3. sæti í Reykjavík

Aldur

34 ára, 35 í sumar

Maki/börn

Engin börn og engan maka ennþá, þó ég sé í ferli þá á ég “börn” á lager svo að ég vonast til að eignast börn einhvern tímann.

Hvar ólstu upp

Ég ólst upp fyrstu 15 árin í Hólahverfinu svo flutti ég í Seljahverfið og bjó þar til ég fór í Háskóla en er komin aftur þangað núna. Mér finnst æðislegt að búa í Breiðholtinu og ég naut þess mjög. Mér fannst reyndar æðislegt að búa í Seljahverfinu. Þar kynntist ég þeim sem eru ennþá mínir bestu vinir í dag. Ég ber ennþá taugar til Hólahverfis þó að það hafi ekki verið allt auðvelt þar. Góðar minningar en líka erfiðar, í Hólabrekkuskóla var einelti en þó ég hafi lent í einelti þar þá upplifði ég það að skólakerfið hafi tekið í taumana og ég á góðar minningar þaðan.

Menntun

Ég er útskrifuð af náttúrufræðibraut í MR sem gerði mér gott, ég þurfti á því að halda að vera í bekkjarkerfi í skóla. Ég er ekki ennþá búin að klára háskólann en það kom í ljós að ég væri með frekar mikið ADD og er að díla við það núna sem hefur setið svolítið á mér. Ég er líka trans og var ekki tilbúin að takast á við það þá og það olli þunglyndi og ADD gerði þetta allt erfiðara. En ég er um það bil hálfnuð með BA í stjórnmálafræði með hagfræði sem aukagrein. Ég þurfti að hætta af óskyldum ástæðum. ADD er sem sagt athyglisbrestur án ofvirkni. Ég upplifði þessi vandamál sem snjóbolta sem gerði lífið mitt mjög erfitt á þessum árum og það er ekki í rauninni fyrr en núna að mér finnst ég tilbúin að takast á við lífið út á við. Þessi reynsla getur algjörlega hjálpað mér í stjórnmálum. í fyrsta lagi þá er auðveldara að skilja þegar fólk er með alls konar vandamál og ég hef oft þurft að grípa til þess að ég hef aðeins öðruvísi sýn á samskipti kynjanna, femínisma, karlrembu og fleira. Ég sé þetta með aðeins öðrum gleraugum en flestir þar sem ég ólst upp við þetta á einn hátt en var öðruvísi. Það líka að vita hvað það er lamandi að vita að þú sért klár, getur lesið en einhvern veginn ekki að koma þér í gegnum eitthvað sem þú veist að þú átt að ráða við. Ég var alltaf með rosalega góðar einkunnir í grunnskóla, sæmilegar í framhaldsskóla en hafði ekki námstæknina til að klára þetta í háskólanum.

Starfsreynsla

Ég hef unnið ótrúlega margt síðan, byrjaði sem pizzasendill alveg fyrst, unnið í umönnun á Alzheimerdeild á hjúkrunarheimili sem er svakalega erfitt, ég hef unnið í skógrækt, unnið á hóteli, swm bílstjóri og allrahanda reddari hjá kanadíska sendiráðinu, það var svolítið fyndið. Lengstan tíma var ég í tæknilegri aðstoð hjá símafyrirtæki.

Reynsla sem kemur sér vel til að vera sveitarstjórnarmaður/kona

Ég hef lengi haft mjög mikinn áhuga á pólitík, hef mjög mikið fylgst með pólitík, ég hef verið mjög virk í Píratastarfinu í mörg ár, en hef ekki verið á lista fyrr en núna. Ég hef verið í kosningastjórn og líka stjórn Pírata í Reykjavík í tvö ár. Ég hef tekið þátt í mikilli stefnumótunarvinnu. Það sem borgin þarfnast fyrst og fremst er þjónusta við íbúana og flest sem ég hef unnið eru þjónustustörf af ýmsu tagi. Ég er með gott viðmót, hjálpsöm, og kann að vinna með fólki.

Af hverju býður þú þig fram

Mér finnst ekki að borgin sé yfirvald eða stjórnvald, mér finnst borgin vera hluti af því sem samfélagið hefur ákveðið að gera saman. Ég vil gera vel það sem borgin þarf að gera og ég tel mig vera færa í því. Ég vil gera þetta vel og vil sýna okkur sé alvara í Pírötum, okkar stefnur og áherslur um lýðræði, gagnsæi og aðgengi eigi við borgina, þetta á við í sveitarstjórn líka, ekki bara á landsvísu. Ég vil að þetta sé gert vel og heiðarlega. Sýna Íslendingum að okkur sé treystandi, að við séum ekki bara eitthvað nýtt og undarlegt sem sé varasamt. Við erum búin að vera til lengi. Við erum fimmti elsti stjórnmálaflokkur landsins núna, við getum alveg gert þetta.

Áhugamál

Helsta áhugamálið mitt er pólitík, eins og kannski sjá má, en ég hef líka mikinn áhuga á spilum, bæði borðspilum og spunaspilum eins og Dungeons and Dragons t.d. Ég hef mikinn áhuga á bókum og bíómyndum, Sci-Fi, hef verið Star Trek nörd ég veit ekki í hvað mörg ár. Ég datt líka inn í Star Wars miklu seinna heldur flestir vinir mínir. Fyrir þá sem það varðar þá vel ég alltaf Picard fram yfir Kirk.

Hvaða grunngildi Pírata skipta þig mestu máli

Lýðræði, jafnrétti og gagnsæi er það mikilvægasta. Við þurfum að hafa aðgang og við þurfum að hafa fullan aðgang að lýðræðinu, upplýsingar og þátttöku, ekki bara kjósa. Allir þurfa að hafa þennan rétt og aðgengi að þessu. Það þarf að vera gagnsætt hvað er verið að gera og hver er að því svo að við getum tekið réttar ákvarðanir í lýðræðinu.

Staðreynd um sjálfan þig sem fáir vita/kemur fólki á óvart um þig

Mér finnst það alltaf fyndið að foreldrar mínir voru í Pönkhljómsveit, Fræbbblunum. Börðust fyrir því að bjórinn yrði leyfður á sínum tíma, mér fannst það ákveðinn Píratismi á sínum tíma, að berjast gegn forsjárríkinu og þau eru rosalega opið, gott og klárt fólk og þegar ég var unglingur, svona 14, 15 ára þá var mitt rebellion í því að ég var rosalega venjuleg, svolítið til hægri og tók einhvern mótpól við pönkið en sem betur fer rjátlaðist það af mér. Mitt rebellion var að vera ekki rebell.