Verði Ísbox

2018-05-07T17:52:58+00:00 7. maí, 2018|Akureyri|

Undanfarina daga hafa sumir af duglegustu pírötunum á Akureyrarsvæðinu fjölmennt í eina af eldri byggingunum sem að finnast í miðbænum og tekið hraustlega til hendinni. Veggir voru þrifnir og málaðir, gólf voru ryksuguð, skúruð, ryksuguð aftur og skúruð aftur og gluggarnir voru þrifnir endurtekið, af fleiri en einum, þar til að ekki sást lengur arða á þeim. Húsgögn voru máluð, ný ljós voru sett upp, og píratafánum var bætt við alla leið upp á þak.

Þessu litla húsi, sem að situr notalega umkringt með veitingastaði öðrumegin og ísbúðina hinumegin, hefur þannig verið umbreytt í hemilislega og hlýlega kosningaskrifstofu Pírata á Akureyri sem að hefur hlotið viðurnefnið Ísboxið.

Síðustu smáatriðin eru rétt að smella saman þessa dagana og verður Ísboxið því fullklárað í tíma fyrir hátíðlega opnun þann 10. maí og þá er velkomið að koma og skoða herlegheitin og spjalla við frambjóðendur og reyna að komast að því hvaða píratar voru svona duglegir.