Rabbað við rektor

2018-05-07T17:58:26+00:00 4. maí, 2018|Akureyri|

Undirritaður skýst til dagmömmunnar, klæðir strákinn og beislar hann niður í bílstólnum. Við ætlum að fara saman á fund með rektor. Kosningastjóri Pírata hafði fyrr um daginn spurt hvort ég gæti farið með Dóra oddvita kl 16 á fund með rektor Háskólans á Akureyri.

Til að þetta gengi upp þurfti ég að taka strákinn minn með sem er eins og hálfs árs. Því fórum við saman heim til að sækja dót handa okkur báðum til að það væri fundarfært, iPad handa mér til að taka glósur; bók, kubba og dúkku handa honum. Nei ekki handa rektor, heldur stráknum mínum.

Við mætum fyrir framan háskólann rétt fyrir fjögur, hoppum inn og sjáum skilti þar sem stendur að rektor sé í byggingu H. Ekkert fólk í kring, hvar er bygging H? Aðvífandi kemur engill sem hjálpar okkur í þessari þraut og segir að rektor sé fluttur úr byggingu Há yfir í Háu bygginguna þar sem ég vissi að Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri væri með aðsetur, eða ég held það að minnsta kosti. Ég þakka englinum og spyr hvernig ég komist þar inn, klukkuna vantar eina mínútu í fjögur. Við hoppum yfir bílastæðið, upp tröppurnar upp á fjórðu hæð, hefðum unnið íþróttagreinina “fjölhopp feðga” ef hún væri til. Setjumst niður fyrir utan skrifstofu rektors, því inni á henni var hann að tala við aðra manneskju en Dóra. Hringjum í Dóra, hann hafði reynt að hringja fyrir tveim mínútum en síminn á silent og Dóri svarar ekki. Hann hringir aftur, ég svara ekki, síminn á silent. Loks náum við saman og þá spyr Dóri hvort ég sé ekki að fara að koma, fundurinn sé að byrja. Ég segist vera fyrir framan skrifstofu rektors en það sé einhver inni hjá honum. Nei, fundurinn með rektor er ekki í dag, hann er á föstudaginn. Í dag er fundur með samfélagssviði Akureyrarkaupstaðar í Rósenborg.

Ég tek upp símann, sendi kosningastjóra snapp. Fæ til baka skemmtilegt snapp, mæti á fundinn föstudaginn 4ða með rektor, Ágústa með mér og líka sonur minn. Náði að undirbúa mig aðeins betur og mætti ekki sveittur upp á fjórðu hæð.

Fundurinn var áhugaverður, á honum var fjallað um að líklega myndi fjölga mikið í HA á næstunni og þurfti háskólinn sem og Akureyrarbær að vera í stakk búin til að taka á móti þessum fjölda með sómasamlegum hætti. Akureyrarkaupstaður og Háskólinn á Akureyri hafa löngum gert út á að vera fjölskylduvænir staðir og þar gæti nýsköpun blómstrað og ungt fólk gæti gert það sem það vill. Nú er tíminn til að standa við það.

 

Sævar Þór Halldórsson,

  1. Sæti á lista Pírata til sveitarstjórnarkosningana í Akureyrarkaupstað